Fyrir kaupendur

9 atriði er varða örugg fasteignaviðskipti – upplýstir kaupendur lenda í minnstum vanda 

Almennt eru stærstu fjárhagslegu gerningar fólks þegar það kaupir eða selur fasteign. Það er því mikilvægt að bæði kaupendur og seljendur séu vel undirbúnir.

Reynslan sýnir glöggt að flest þeirra vandamála sem upp koma í gegnum viðskiptin eru milli kaupenda og seljenda. Hjá mörgu hefði mátt komast ef kaupendur hefðu skoðað eignina vel og kynnt sér rækilega hvað væri verið að kaupa. Kaupandi sem kynnir sér málin vel getur komið fram með réttar spurningarnar og veitt því athygli er skiptir máli:

Félag fasteignasala hefur sett upp 9 góð ráð.

  1. Hugaðu vel að því í upphafi á hvaða verðbili eignin eigi að vera og hvaða lánakjör bjóðist. Skoðaðu vel hvernig þú ætlar að standa að fjármögnunni, þar er að mörgu að hyggja. Biddu fasteignasala innan FF um ráð.
  2. Hvers konar eign er ég eða við að leita að innan verðbilsins.
  3. Hvar vil ég/við búa. Vertu “opinn” hér. Þú getur verið ánægð/ur á öðrum stöðum en þú fyrst hugsar um. Ef þú ert með “þröngt” verðbil getur þú fengið meira fyrir peningana í hverfum sem minni eftirspurn er. Hvaða ferðatíma ert þú og fjölskyldan til í að hafa til og frá vinnu eða í tómstundir.
  4. Byrjaðu að skoða vel á netinu en inni á fasteignir.is (inni á vísir.is) eru allar fasteignir sem eru til sölumeðferðar. Þar má sjá helstu upplýsingar um eignina er veita almenna yfirsýn. Sjáir þú áhugaverða eign skaltu hafa samband við fasteignasalann og fá allar nánari upplýsingar. Fasteignasalinn er ávallt búinn að skoða eignina rækilega og vinna ítarlegt söluyfirlit um hana sem hann getur sent þér. Ef eitthvað er en óljóst áður en þú ferð að skoða eignina þá er um að gera að spyrja fasteignasalann.
  5. Vertu vel vakandi fyrir því að verið sé að selja eignina fyrir milligöngu fasteignasala. Listi yfir félagsmenn FF er á fasteignir.is og á heimasíðu FF. Þeir aðilar sem þar eru eru bundnir af margháttuðum skyldum, m.a. ströngum siðareglum auk margs annars er tryggja á neytendur sérstaklega í viðskiptunum.
  6. Flestar eignir eru sýndar nokkrum sinnum. Farðu alltaf á fyrstu sölusýningu eignarinnar og skoðaðu eignina mjög vel. Sé áhugi til staðar fáðu þá kunnáttuaðila að koma með til að skoða eignina. Spurðu fasteignasalann um allt það sem að þú ert ekki viss um en á fasteignasalanum hvílir rík ráðgjafaskylda gagnvart þér. Ef þú hefur gleymt einhverju vertu ófeimin/nn að biðja um að fá að skoða aftur. Opin hús eru auglýst sérstaklega í dagatali inni á fasteignir.is (visir.is), vertu vel vakandi fyrir hvenær opin hús eru haldin.
  7. Að vera ánægður með eignina skiptir vitaskuld miklu en gættu að því að verða ekki svo háð/ur staðsetningu eignarinnar eða öðru að það valdi því að þú reisir þér hurðarás um öxl fjárhagslega eða eignin mæti ekki þeim þörfum sem þú hefur.
  8. Núna getur þú lagt inn tilboð hafir þú fundið réttu eignina. Oft er sú staða uppi að fleiri hafa jafnframt áhuga á sömu eigninni. Vertu viðbúin/nn því að að aðrir kunna að hafa meiri greiðslugetu en þú. Það er fullkomlega eðlilegt að verða vonsvikin/nn að fá ekki eign sem maður býður í, en mundu það eru fáar “alveg einstakar” eignir sem um ræðir. Gættu þín á að fara ekki út fyrir þann verðramma sem að þú hefur sett þér. Gerðu ekki tilboð nema hafa vissu fyrir því að geta staðið við boðið. Mundu að boð þitt í eignina er alltaf skriflegt og er bindandi, fasteignasalinn getur á hinn bóginn sett í samninginn fyrir þig einhvern fyrirvara inn í kauptilboðið. Um slíkt leiðbeinir fasteignasalinn þér. Spurðu félagsmann FF um allt sem þú vilt vita við skjalagerðina en honum ber ávallt skylda að vera viðstaddur þegar þú skrifar undir skjöl og skýra út sé eitthvað óljóst eða viljir þú fá nánari upplýsingar.
  9. Eignin er þín ! Þegar komið er samþykki seljanda við boði þínu eru kaupin gerð. Til hamingju ! Hafir þú fylgt þeim 8 atriðum sem að nefnd voru hér að framan eru allar líkur á því að þér eigi eftir að líða vel í nýju íbúðinni og þú komist hjá vandamálum.