C. Kauptilboð

C. Kauptilboð

Þegar kaupandi hefur fundið þá eign sem hann vill gera tilboð í aðstoðar fasteignasalinn hann við uppsetningu kauptilboðsins og gætir að hagsmunum hans eins og lög áskilja og veitir góð ráð. Mikilvægt er að hafa í huga að kauptilboð er mjög mikilvægur gerningur og njörvar almennt niður allt frekara framhald viðskiptanna.

Brýnt er að  kaupaendur og seljendur kynni sér rækilega samninginn.  Á fasteignasala hvílir skýr og brýn lagaskylda að vera viðstaddur þegar kaupandi hyggst undirrita kauptilboð og að sama skapi eiga aðilar rétt á allri þeirri ráðgjöf er  þeir þarfnast frá fasteignasalanum persónulega. Mikilvægt er að  kaupandi leiti svara hjá félagsmanni FF um allt það er kann að vera óljóst eða kaupandi vill fá svör um. Félagsmönnum FF er reglulega boðið upp á endurmenntun til að halda ítarlega við kunnáttu og þekkingu.

Athugaðu vel að kauptilboðið er skuldbindandi og getur sá aðili er gerir kauptilboð orðið skaðabótaábyrgur hætti hann við og ekki séu til staðar fyrirvarar .  

Í kauptilboðinu er kveðið á um með hvaða hætti greiðslur eigi að berast og hve hátt lán kaupandinn ætli að taka hjá lánastofnun. Oft er kveðið á um fyrirvara að lán fáist til kaupanna – sá tími er oft  u.m.þ.b.14 -21 dagar.  Fái kaupandi ekki lán til kaupanna er kauptilboðið að jafnaði fallið niður og tilkynnir fasteignasalinn seljanda þegar um þá niðurstöðu.  Má þá segja að málin séu komin á byrjunarreit að nýju.

Gangi á hinn bóginn allt eftir og lán fáist boðar fasteignasalinn til kaupsamnings hið fyrsta.  Oft líður þarna um 4-5 vikur frá því kauptilboðið var gert og þangað til kaupsamningur er haldinn.