D. Kaupsamningur

D. Kaupsamningur

Gangi kauptilboð eftir með þeim hætti sem samið er eins fljótt og unnt er boðað til kaupsamnings (oft 4-5 vikur) . 

Félagsmanni FF ber við kaupsamningsgerð lagaleg skylda að vera viðstaddur eins og við alla aðra samningsgerð fasteignaviðskiptanna. Fasteignasalinn hefur ríkar skyldur að veita nauðsynlega ráðgjöf áður en skrifað er undir skjöl og gæta að því að réttmætra hagsmuna beggja aðila sé gætt og að ekki séu settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir kostir í samningum. Mikilvægt er að spyrja fasteignasalann um allt það er kann að vera óglöggt.

Þú getur alltaf séð hverjir eru félagsmenn FF inni á heimasíðu FF og myndir af þeim – á þeim hvíla að auki brýnar kröfur að gæta að ströngum ákvæðum siðareglna sem fasteignasalar innan Félags fasteignasala er skylt að fylgja í einu og öllu enda lagalegar og siðferðilegar kröfur algerlega samþættar.    

Í kaupsamningnum eru njörvuð niður öll samningsákvæði milli kaupanda og seljanda og fer fasteignasali rækilega yfir alla þætti samningsins og skýrir fyrir aðilum allt það sem kann að vera óljóst.

Mikilvægt er að huga að því verði breytingar frá kauptilboði til kaupsamnings að aðilum sé kynnt með rækilegum hætti hverjar þær eru og hvaða afleiðingar þær kunni að hafa. Slíkar breytinga þarfnast samkomulags beggja aðila. Við kaupsamning er skuldabréfið (lánið) undirritað af bæði seljendum og kaupendum. Fasteignasalinn tryggir að kaupsamningurinn og lánsskjölin ásamt öðrum nauðsynlegum gögnum berist sýslumanni til þinglýsingar.

Mikilvægt er að þess sé gætt að kaupsamningsgreiðslur séu greiddar á gjalddaga. Seljanda er heimilt að reikna dráttarvexti á vanskil frá þeim degi. Ef gjalddaga ber upp á helgidegi er fyrsti virki dagur þar á eftir greiðsludagur.